Ertu laufblað sem fýkur stefnulaust í allar áttir eða rótfast tré sem rétt bærist með vindinum?
Við lendum í allskonar aðstæðum í lífinu. Stundum er meðvindur, stundum logn og stundum mótvindur.Meðvindur og logn eru oft ákjósanleg. En það er þetta hvernig við tæklum mótvindinn sem skiptir máli. Verðum við máttlaus fórnarlömb eða finnum við leiðir til þess að ganga áfram á móti vindi?
Það er fátt sem letur okkur jafn mikið og að detta í fórnarlambsgírinn. Vorkenna okkur sjálfum og líta á alla hina sem vandamálið. Það er eins og að klessa stanslaust á sama vegginn. Það verður enginn framgangur.
Þegar við erum klædd búningi fórnarlambsins tökum við ekki ábyrgð. Lítum ekki í eigin barm né þroskumst. Verðum í raun okkar ógæfu smiðir.
Þess vegna er svo mikilvægt að taka ábyrgð. Vera í stöðugri sjálfskoðun. Breyta, bæta og læra. Vera æðrulaus og sætta sig við hlutina eins og þeir eru. Bæta það sem þarfnast bætingar og taka stjórn á eigin lífi. Vera okkar eigin gæfu smiðir.
Því það er ekkert í þessu lífi sem gerist af sjálfu sér. Það krefst vinna. En sú vinna að taka ábyrgð á eigin lífi skilar sér margfalt til baka.
Comments