top of page

Frelsið í átt að mér

Updated: Jan 28


Það að finna sjálfan sig og vera maður sjálfur er öllu flóknara en orðin ein.

Það er ekkert svart eða hvítt eða ofur einfalt í þessu lífi. Flest förum við inn í fullorðinsárin með eitthvað í bakpokanum. Mismikið og misþungt.

Sum okkar ná því miður aldrei að tæma eða endurnýja þennan bakpoka. Flest berum við einhver sár eða mynstur frá æsku okkar og skilgreinum svo veruleika okkar út frá því. Sum erfum við áföll forfeðra okkar. Finnum svo innilega fyrir því á eigin skinni að eitthvað er að en skiljum það samt ekki. Það er eins og áföllin liggi djúpt innra með okkur.

Þannig fór ég út í þetta magnaða líf. Fann fyrir vanlíðan og einhverjum hlekkjum innra með mér. Þetta voru einhver óþægindi sem lágu þarna eins og djúpur sársauki. Sársauki sem svo olli kvíða, brestum og seinna meir kom út í líkamlegum verkjum og heilsubresti.

En lífið veitir okkur oft tækifæri til að vakna upp og breyta. Við erfiðleika getum við breyst og valið nýja leið. Ég var afar heppin að ganga inn mannræktarsamtök ung og hefja leið í átt að meiri meðvitund. Púsla saman brotum og átta mig á mynstrum. Á mörgum árum og í allskonar sjálfsvinnu hef ég haldið áfram að leita að mér.

Ég hef leitað að litlu stelpunni sem fæddist í þennan heim án mynstra en mögulega bar stelpan samt áföllin strax frá móðurkviði. Mitt markmið er að opna augun mín meira og meira alla ævi og færast nær mínum sanna kjarna. Ekki flýja sársaukann heldur finna hann og leyfa honum svo að flæða sínar réttu leiðir. Ég hef kosið að velja nýja leið við ósinn.

Ég finn svo mikla hlýju og ást til forfeðra minna sem ekki höfðu tækifæri til að finna sársaukann og vinna með hann. Sem deyfðu sig því þetta var svo sárt. Sem fóru grýtta leið því þeir gátu ekki annað.

Ég er svo heppin að skilja hvers vegna ég er svona. Fá tækifæri til að rjúfa keðjuna og mögulega gefa börnum mínum verkfæri til að rjúfa hana enn fremur. Fá að auka frelsi mitt með hverjum deginum. Því það er frelsi að finna sig aftur. Munum að lífið er dýrmæt gjöf og við höfum val hvernig við verjum því.




23 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page